Endurhæfing í dagþjónustu

Boðið er upp á þverfaglega endurhæfingu í dagþjónustu. Sett er upp einstaklingsmiðuð endurhæfingaráætlun sem er endurskoðuð á a.m.k. 6 mánaða fresti. Engin tímamörk eru skilgreind á þjónustunni en lengd endurhæfingar verður metin út frá endurhæfingarþörf og aðsókn í úrræðið. Við útskrift er metið hvort að viðkomandi sé vísað í annað úrræði eða ekki. Markmiðið er að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem hafa orðið fyrir veikindum eða slysum til að takast á við breyttar aðstæður, veita heildræna þjónustu með fjölskyldumiðaða nálgun í huga. 

Endurhæfing í sólarhringsþjónustu

Boðið er upp á þverfaglega endurhæfingu í sólarhringsþjónustu. Sett er upp einstaklingsmiðuð endurhæfingaráætlun sem er endurskoðuð á 6 mánaða fresti. Miðað er við að hámarksdvöl sé allt að 2 ár. Að þeim tíma loknum er viðkomandi útskrifaður annað hvort heim til sín eða í annað úrræði svo sem í íbúð hjá Sjálfsbjörg eða Félagsbústöðum o.s.frv. Flestar umsóknir berast frá Grensásdeild Landspítala eftir að einstaklingar hafa lokið frumendurhæfingu. Markmiðið er að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem hafa orðið fyrir veikindum eða slysum til að takast á við breyttar aðstæður, veita heildræna þjónustu með fjölskyldumiðaða nálgun í huga.

Inntökuteymi og endurhæfingarteymi

Hjá Sjálfsbjargarheimilinu starfar inntökuteymi og endurhæfingarteymi. Félagsráðgjafi heldur utan um starf inntökuteymis og talmeinafræðingur heldur utan um starf endurhæfingarteymis. Teymin skipa eftir þörfum endurhæfingarlæknir, félagsráðgjafi, fjölskylduráðgjafi, hjúkrunarfræðingur, iðjuþjálfi, talmeinafræðingur og sjúkraþjálfi.