Markmið og hlutverk Sjálfsbjargarheimilisins

Sjálfsbjargarheimilið er endurhæfingarstofnun sem tekur á móti einstaklingum á aldrinum 18-67 ára sem hafa lokið frumendurhæfingu en þurfa áframhaldandi aðstoð við að aðlagast breyttum aðstæðum og færni. Sjálfsbjargarheimilið var opnað í júlí árið 1973 af Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra þegar fyrsti íbúinn flutti inn á heimilið. Árið 1997 staðfestir stjórn  skipulagsskrá fyrir SBH og segir þar m.a.: „Sjálfsbjargarheimilið er fyrir hreyfihamlað fólk er þarfnast aðstoðar og stuðnings við athafnir daglegs lífs. Markmið Sjálfsbjargarheimilisins er að: Gera íbúum kleift að lifa eins sjálfbjarga lífi og mögulegt er. Þess skal gætt að réttur þeirra til sjálfsákvörðunar sé virtur. Taka skal mið af þörfum hvers og eins og stuðla að innihaldsríku lífi.”

Starfsemin hefur síðan vaxið, dafnað og tekið umtalsverðum breytingum frá upphafi. Sjúkraþjálfun hófst (1978), dagvist er stofnuð (1979), sundlaugin er opnuð (1981). Rými fyrir skammtímadvöl er útbúið (1989), fyrsti iðjuþjálfinn ráðinn (1990), sjálfstæð stjórn Sjálfsbjargarheimilisins fyrst skipuð (1991).  Endurhæfingaríbúð er tekin í notkun (1993), nýtt húsnæði vígt fyrir dagvistina (1994) og teknar í notkun tvær setustofur (1999). Þjónustumiðstöð Sjálfsbjargarheimilisins verður til við sameiningu iðjuþjálfunar og Dagvistar Sjálfsbjargarheimilisins (2002). Sjálfstæð búseta með stuðningi (2003) og Þekkingarmiðstöð SBH stofnsett (2012), Hjálpartækjaleiga eitt af verkefnum Þekkingarmiðstöðvar (2017). Þá hefur reksturinn stöðugt verið að taka breytingum og m.a. er áherslan núna á sjálfstæða búsetu með stuðningi og stærra íbúðarrými fyrir hvern íbúa. Á árinu var aukin áhersla sett á endurhæfingu (2020) og tekinn inn fyrsti íbúinn í slíkt prógramm.

Sjálfsbjargarheimilið hlaut viðurkenninguna Fyrirmyndarstofnun árin 2006, 2008, 2009 og 2013 og hlaut svo viðurkenninguna Stofnun ársins 2014. Á árinu 2020 hlaut það viðurkenninguna „Hástökkvari ársins“  í flokki ríkis- og sjálfseignastofnana en þá fór Sjálfsbjargarheimilið upp um 48 sæti. Stofnun ársins er verkefni á vegum Sameykis.